Jólapestin

Er í náttfötum annan daginn í röð. Æðri máttarvöld höfðu af því spurnir að uppi á miðhálendi (lesist: Grafarholt) væri jólaóð kona í þann mund að setja Íslandsmet í jólaundirbúningi. Þóttu það mikil vátíðindi þarna efra (hér á efra við híbýli æðri máttarvalda en ekki Grafarholtið, sem þó mætti vissulega skilgreina sem efra líka) og skilaboð voru send til jólaóðu konunnar með hraði um að slíkur myndugleiki jaðraði við geðveiki. Geðveiki bæri að stöðva by all means hið fyrsta.

Til að gera langa sögu stutta fékk jólaóða konan skilaboðin. By all means útleggst sem krankleiki sem ekki þykir smekklegt að skrifa um á alnetinu. Forvitnum er bent á að horfa á Friends, söguna af því þegar Ross heimsótti a town a little bit south of... you know what. En æðri máttarvöldum þótti greinilega ekki nóg að "þurrka upp" jólaóðu konuna. Nokkrar læsingar í baki fengu að fljóta með í pakkanum og leiðinda kvefpest. Fröken jólaóð neyddist því til að liggja í bælinu í gær.

Litla fröken jóló liggur ekki alveg í bælinu í dag þótt betri vitund og bakverkir mæli sterklega með því. Það þarf víst að klára að ganga frá jólakortum. Fyrirhuguð konfektgerð og bakstur verða hugsanlega að bíða betri tíma en kortin skulu út. Þess vegna hefur jólakonan ógurlega komið sér upp plani. Fyrst skal jólast í 45 mínútur og svo blundur í 45 mínútur. Þetta er svo endurtekið eftir þörfum þangað til markmiðum er náð. Eða þangað til ég missi meðvitund. Annað hvort.

Nú er búið að eyða nokkrum tíma af jólahluta plansins í að blogga sem þýðir að ég er á eftir áætlun. Úbbs.

Yfir og út. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband