Ólympíufari í mótun

Nú kemur eitt mömmublogg. Allar mæður þurfa af og til að auglýsa snilli barna sinna og í dag er svoleiðis dagur hjá mér.

Valur byrjaði í íþróttaskóla í dag. Ég var nokkuð óviss hvernig hann myndi taka þessari nýjung þar sem hann er ekkert alltaf æstur í að prufa nýjar aðstæður eða vera innan um ókunnugt fólk. Þegar við komum inn í búningsklefa tilkynnti hann okkur nokkuð taugaveiklaður að hann vildi fara heim. En við hlustuðum nú ekki á svoleiðis vitleysu, skelltum honum bara í Liverpool gallann og fórum inn í sal.

Þar kom annað hljóð í skrokkinn. Það lá við að við heyrðum kitlandi tilfinningu fara um lítinn skrokkinn þegar hann sá þrautabrautina og allt dótið. Hann hafði sig hægan fyrst um sinn en dauðlangaði greinilega að prófa dótið. Svo mætti Alli api á svæðið og við sungum Höfuð, herðar, hné og tær. Brjálað stuð.

Þá var loksins komið að aðalatriðinu, þrautabrautinni. Kættist þá minn maður heldur betur og hlýddi í einu og öllu. Hann nánast hljóp á jafnvægisslánni, gerði kollhnísa eins og hann hefði aldrei gert neitt annað og skreið kampakátur í gegnum göng í tjaldi. Hann hoppaði á trampólíni, sveiflaði sér í kaðli og hékk í hringjum svo vel að sjálfur Tarzan hefði ekki getað gert þetta betur. Það var bara einn galli. Strákurinn sem var á undan honum var svo varkár og fór svo hægt að Valur þurfti alltaf að bíða eftir að komast í næstu þraut. Hann leysti þann vanda þó fljótt og auðveldlega, stytti sér einfaldlega leið og fór í skemmtilegustu þrautirnar aftur og aftur.

Eftir 40 mínútur var ég algjörlega búin að vera en sem betur fer var tíminn ekki lengri en það. Þá tók hins vegar við stríðið við að fá barnið til að yfirgefa íþróttasalinn. Hann var sko ekki á því, steypti sér í kollhnísa, hoppaði og prílaði og harðneitaði að fara. Valur var því borinn út úr salnum þrátt fyrir heiðarlegar flóttatilraunir og kröftug mótmæli.

Þá er bara að hlakka til næstu 8 laugardaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband