Meirihluti Framsóknarflokksins

100 dagar við völd
11. október 2007
Feluleikur á Höfða
Meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknarflokks, að Birni Inga Hrafnssyni undantöldum, funda um fjárhagsáætlun borgarinnar í Höfða. Á sama tíma situr Björn Ingi að samningum með fulltrúum annarra flokka.
-DV, 22. jan. 2008, bls. 7

Með öðrum orðum: Allir Framsóknarborgarfulltrúarnir, nema Bingi, funduðu með sjöllunum í Höfða. Eini frammarinn sem eftir var (Bingi) plottaði valdarán. 

Borgarfulltrúar Framsóknar eru greinilega fleiri en ég hélt.

Ég tek ofan fyrir svona blaðamennsku.


Ólympíufari í mótun

Nú kemur eitt mömmublogg. Allar mæður þurfa af og til að auglýsa snilli barna sinna og í dag er svoleiðis dagur hjá mér.

Valur byrjaði í íþróttaskóla í dag. Ég var nokkuð óviss hvernig hann myndi taka þessari nýjung þar sem hann er ekkert alltaf æstur í að prufa nýjar aðstæður eða vera innan um ókunnugt fólk. Þegar við komum inn í búningsklefa tilkynnti hann okkur nokkuð taugaveiklaður að hann vildi fara heim. En við hlustuðum nú ekki á svoleiðis vitleysu, skelltum honum bara í Liverpool gallann og fórum inn í sal.

Þar kom annað hljóð í skrokkinn. Það lá við að við heyrðum kitlandi tilfinningu fara um lítinn skrokkinn þegar hann sá þrautabrautina og allt dótið. Hann hafði sig hægan fyrst um sinn en dauðlangaði greinilega að prófa dótið. Svo mætti Alli api á svæðið og við sungum Höfuð, herðar, hné og tær. Brjálað stuð.

Þá var loksins komið að aðalatriðinu, þrautabrautinni. Kættist þá minn maður heldur betur og hlýddi í einu og öllu. Hann nánast hljóp á jafnvægisslánni, gerði kollhnísa eins og hann hefði aldrei gert neitt annað og skreið kampakátur í gegnum göng í tjaldi. Hann hoppaði á trampólíni, sveiflaði sér í kaðli og hékk í hringjum svo vel að sjálfur Tarzan hefði ekki getað gert þetta betur. Það var bara einn galli. Strákurinn sem var á undan honum var svo varkár og fór svo hægt að Valur þurfti alltaf að bíða eftir að komast í næstu þraut. Hann leysti þann vanda þó fljótt og auðveldlega, stytti sér einfaldlega leið og fór í skemmtilegustu þrautirnar aftur og aftur.

Eftir 40 mínútur var ég algjörlega búin að vera en sem betur fer var tíminn ekki lengri en það. Þá tók hins vegar við stríðið við að fá barnið til að yfirgefa íþróttasalinn. Hann var sko ekki á því, steypti sér í kollhnísa, hoppaði og prílaði og harðneitaði að fara. Valur var því borinn út úr salnum þrátt fyrir heiðarlegar flóttatilraunir og kröftug mótmæli.

Þá er bara að hlakka til næstu 8 laugardaga.


Ár draumanna?

Mér leið ekkert smá vel þegar ég las ársstjörnuspá steingeitarinnar í Séð og heyrt.

Árið 2008 trúir Steingeitin því að draumar hennar geti orðið að veruleika og lífið eins og í ævintýrum.

Ekki slæm byrjun það! Svo las ég áfram. Þetta lofaði allt alveg afskaplega góðu, gott fjárhagsár í vændum, glæstir sigrar og ég veit ekki hvað og hvað. Mér var lofað öllu fögru þarna í upphafi stjörnuspárinnar, hamingju í mannlegum samskiptum, bjartsýni og jákvæðni og mitt einstaka lundarfar ku víst smita út frá sér á árinu og bæta líf fólks í kringum mig svo um munar.

Svo las ég áfram. Einstæð heppni og velgengni verður víst í starfi Steingeitarinnar árið 2008. Flott er, slíkt er aldrei slæmt. Nokkur orð um valdabaráttu og hugsanlegt einelti á vinnustað, ok, kannski ekki alveg eins gott. Og svo las ég áfram. Rúsínan í pylsuendanum.

Árið 2008 verður ekkert sérstaklega gott hjá þeim sem starfa við fjölmiðla.

Já, þar höfum við það. Sem steingeit og starfsmaður fjölmiðils finnst mér þetta ekkert allt of gott, tala nú ekki um ef ég verð lögð í einelti í ofanálag.

Nú er bara að bíða og sjá hvort Séð og heyrt býr yfir sama spádómshæfileika og Mogginn gerði hér í eina tíð. Þá var stjörnuspáin stundum eins og klippt út úr dagbókinni minni. 


Paprika og köttur

Í dag málaði ég papriku. Kannski ekki merkilegt myndefni en mér finnst stórmerkilegt hvað ég er montin af sjálfri mér. Það sést, bæði úr fjarlægð og í návígi, hvaða grænmeti þetta er og það er nú bara þó nokkuð. Um daginn gerði ég til dæmis tilraun til að mála epli. Það á víst að vera svona beisikk byrjanda dæmi, eitthvað sem allir ráða við. En séð úr fjarlægð virtist eplið mitt vera farið að rotna verulega og up close and personal kom í ljós að eplið var bara ein málningarklessa sem átti fátt skylt með ávöxtum. En ég virðist nú eitthvað vera að ná tökum á málningargræjunum sem Óli gaf mér í jólagjöf og læt hér fylgja mynd af téðu grænmeti.

 


 

Í dag gerði ég líka uppgötvun. Ég verð að eignast kött. Svona alvöru kvikyndi sem fer úr hárum og pissar á gólfið. Batterísknúna kisan sem við keyptum í Svíþjóð í sumar dugar ekki til - sem er nokkuð slæmt þar sem hún gerir ekkert af sér, gerir hvergi stykkin sín, matarkostnaður er enginn og ef við fáum leið á kisu þá getum við bara slökkt á henni.

Ég skrapp með Val í heimsókn til Selmu vinkonu. Hún á tvo ketti og mér datt í hug að Valur hefði gaman af því að sjá þá. Honum leist ekkert á blikuna þegar Selma og krakkarnir hennar tóku á móti okkur og hann tilkynnti að hann vildi fara heim. En um leið og kisa mætti á svæðið kom annað hljóð í skrokkinn. Valur leyfði ókunnugum að færa sig úr útigallanum og svo var eins og barnið væri með herðatré í munninum, svo vítt var brosið. Það er sem sagt klárt mál að heimilisköttur myndi kæta yngsta fjölskyldumeðliminn. Ég yrði á hinn bóginn ekkert ofsalega kát þegar hann myndi skíta á teppið og rispa leðurstólana.

 

Valur, Hrefna María og Askur

 

 

Valur leikur við Ask

 

 

Valur og Simbi

 


Fegurðin uppmáluð

ScratÁkvað svona í tilefni dagsins að skella inn nýrri mynd af mér. Nældi mér í svona afskaplega glæsilega sýkingu í annað augað þannig að það skrapp saman. Hitt augað er þó enn uppglent og með fulla virkni. Mér líður dálítið eins og súrrealísku málverki.

 


Dílemma

Er það ekki kaldhæðni örlaganna að þegar ég hef loksins eignast DVD-upptökutæki
sem getur gert beisikklí allt þá skuli ég geta valið á milli þýskrar
sjónvarpsmyndar og vörutorgs í sjónvarpinu??? Get bara hreinlega ekki gert upp
við mig hvort ég vil taka upp til að prufa tryllitækið. It's like Sophie's
choice...

Dagur 3

Kæra blogg. Ég á afmæli í dag. Til hamingju með mig. Ég er 25 ára, ekki reyna að sannfæra mig (né nokkurn annan) um annað. Aldurinn verður endurskoðaður við næsta stóra áfanga lífs míns (hvenær sem hann verður nú).

Í dag er dagur 3. Dagur 1 fór að mestu í að ná upp svefni eftir dag 365. Dagur 2 fór í mikil heilabrot og vangaveltur og nú er kominn dagur 3 og ég er enn að velta mér upp úr því hvernig ég hóf árið 2008. Ég fór í hið árlega áramótapartý á Arnargötunni. Þar var fámennt en góðmennt. Ýmislegt var sagt sem fékk mig til að staldra aðeins við í tíma og rúmi, hugsa um lífið og tilveruna og svona hitt og þetta. Ég þurfti strax að halda áramótaheitið (sem ég vil bæ ðe vei ekki upplýsa hvert er) og nú á degi 3 get ég með stolti sagt að ég sé ekki enn búin að brjóta það. En men ó men hvað það er stundum erfitt.

Strákarnir mínir voru voða sætir í morgun og gáfu mér risastóran pakka. Í honum var þetta forkunnarfagra DVD-upptökutæki. Þegar ég kem heim í dag ætla ég að eiga móment með gjöfinni, njóta þess að taka tækið upp úr kassanum, lesa leiðarvísinn og tengja skart-tengi og fleira spennandi. Langþráður draumur hefur ræst.


Hólí mólí

Sjitturinn titturinn og allt það. Klukkan er korter í áramót og áður en ég veit af verður klukkan orðin korter í afmæli. Árið 2007 næstum búið og árið 2008 alveg að koma. Hvernig gerðist þetta eiginlega??? Og ég ekki búin að gera neitt af viti á árinu... Í gær var bara október.

Árið 2007 var í minningunni óttaleg flatneskja og lítið markvert sem gerðist í mínu lífi. Og þó... við fluttum upp á miðhálendi. Sem stendur velti ég því fyrir mér hvort það hafi verið heimskulegasta ákvörðun lífs míns. Hér er alltaf rok og skítaveður. Það liggur við að maður kalli út björgunarsveitirnar þar sem jólaskreytingarnar á pallinum virðast vera að fara til fjandans. En þær (björgunarsveitirnar, ekki jólaskreytingarnar) eru víst fastar uppi á Langjökli þar sem einhverjar mannvitsbrekkur eru í göngutúr. En já, sum sé, flutningar einn af há(lág-?)punktum ársins.

Tækjafríkið ég verð nú líklega að setja tækjakaup fjölskyldunnar ofarlega á lista yfir markverðustu punkta ársins. Sumir myndu segja að bílakaup væru stór áfangi en mér finnst miklu merkilegra að ég keypti mér flatskjá í gær. Bíllinn er nú líka bara yfirbyggt reiðhjól, eins og Óli segir, þannig að flatskjárinn er merkilegri.

Annars held ég að persónulegur hápunktur ársins sé New York ferðin mín í september. Frábært veður, frábær félagsskapur, frábær matur, frábær skemmtun og mikilvægast af öllu: ég fann aftur pæjuna í mér. Hún hafði týnst fyrir allnokkru og virtist bara hreint ekki ætla að koma í leitirnar aftur. En þökk sé vinkonum mínum, Hildi, Jóhönnu, Carrie Bradshaw og Victoriu tókst mér að lappa upp á pæjuna þannig að útkoman var bara alveg hreint ágæt.

Já, og það minnir mig á annan hápunkt ársins. Í apríl hóf ég afar mikið átak með þeim afleiðingum að ég varð sterk og stælt og nokkur kíló fuku út í veður og vind. Mig grunar reyndar að ég sé búin að éta allt á mig aftur um jólin en þá er bara að drífa sig aftur í ræktina. Lífið er endalaus megrun.

Árið 2007 átti sínar lægðir líka, mikil togstreyta og valkvíði hrjáði mig á árinu og óvissa um hvað ég átti til bragðs að taka. Ákvörðun var þó tekin á haustmánuðum og ég held að ég hafi valið rétt á endanum.

Ég vona að árið 2008 verði betra en árið 2007. Ég er búin að ákveða aðal áramótaheitið mitt en ég veit að það á eftir að reynast þrautin þyngri að fylgja því eftir. Hvert heitið er vil ég ekki upplýsa því það myndi einnig veita upplýsingar um hvað ég hef verið sorgleg hingað til að fylgja því ekki eftir. Um síðustu áramót strengdi ég þess heit að taka líkamann í gegn og ég gerði það. Nú er komið að andlegu hliðinni, allsherjar yfirhalning þar, takk fyrir takk. Að auki ætla ég að láta gamlan draum rætast. Það þýðir ekkert að sitja bara á rassinum og væla. Þið vitið, þetta með Múhammeð og fjallið og allt það...

Takk fyrir tvöþúsundogsjö. Yfir.

Fröken Miðhálendi.is 


Jólapestin

Er í náttfötum annan daginn í röð. Æðri máttarvöld höfðu af því spurnir að uppi á miðhálendi (lesist: Grafarholt) væri jólaóð kona í þann mund að setja Íslandsmet í jólaundirbúningi. Þóttu það mikil vátíðindi þarna efra (hér á efra við híbýli æðri máttarvalda en ekki Grafarholtið, sem þó mætti vissulega skilgreina sem efra líka) og skilaboð voru send til jólaóðu konunnar með hraði um að slíkur myndugleiki jaðraði við geðveiki. Geðveiki bæri að stöðva by all means hið fyrsta.

Til að gera langa sögu stutta fékk jólaóða konan skilaboðin. By all means útleggst sem krankleiki sem ekki þykir smekklegt að skrifa um á alnetinu. Forvitnum er bent á að horfa á Friends, söguna af því þegar Ross heimsótti a town a little bit south of... you know what. En æðri máttarvöldum þótti greinilega ekki nóg að "þurrka upp" jólaóðu konuna. Nokkrar læsingar í baki fengu að fljóta með í pakkanum og leiðinda kvefpest. Fröken jólaóð neyddist því til að liggja í bælinu í gær.

Litla fröken jóló liggur ekki alveg í bælinu í dag þótt betri vitund og bakverkir mæli sterklega með því. Það þarf víst að klára að ganga frá jólakortum. Fyrirhuguð konfektgerð og bakstur verða hugsanlega að bíða betri tíma en kortin skulu út. Þess vegna hefur jólakonan ógurlega komið sér upp plani. Fyrst skal jólast í 45 mínútur og svo blundur í 45 mínútur. Þetta er svo endurtekið eftir þörfum þangað til markmiðum er náð. Eða þangað til ég missi meðvitund. Annað hvort.

Nú er búið að eyða nokkrum tíma af jólahluta plansins í að blogga sem þýðir að ég er á eftir áætlun. Úbbs.

Yfir og út. 


Minning um mann

Þegar fólk fellur frá finnst mér gott að hugsa um lífið sem sjónvarpsþátt. Persóna í sjónvarpsþætti er skrifuð út úr þættinum af því að leikarinn hefur fengið annað og betra hlutverk í öðrum þætti. Við þurfum kannski smá tíma til að venjast sjónvarpsþættinum með færri leikurum eða hugsanlega nýjum leikurum en við getum þó alla vega alltaf huggað okkur við að eldri upptökur eru til, hvort sem þær eru á dvd-diskum uppi í hillu hjá okkur eða í skjalageymslum og filmusöfnum framleiðendanna. Og svo kemur það fyrir að við fáum endursýningar endrum og sinnum.

Því er eins farið með raunveruleikann. Minningarnar eru upptökusafnið og það kemur fyrir að við röltum niður Memory Lane og upplifum endursýningu. Það hjálpar líka að hugsa um að vinur eða vandamaður hafi fengið nýtt og betra hlutverk annars staðar.

Í dag verður Jón Gunnar Grjetarsson jarðsunginn. Af þeim sökum hef ég dvalið á Memory Lane við og við síðustu daga. Ég þekkti hann ekki mjög mikið en við unnum saman og ég á eina minningu sem stendur upp úr.

Á Gamlársdag, að lokinni síðustu vakt ársins, tíðkast á fréttastofu Sjónvarpsins að skálað sé í freyðivíni og snittum. Árið 2002 vildi svo til að ég var að vinna í Textavarpinu, sem þá var inni á fréttastofu Sjónvarpsins. Mín vakt var til fjögur en fréttavaktinni lauk hins vegar um klukkan hálf tvö. Flestir voru farnir um tvöleytið en einhverra hluta vegna var Jón Gunnar áfram. Geir Magnússon íþróttafréttamaður var eftir inni á íþróttadeild að ganga frá einhverju en að öðru leyti voru allir farnir. Það var allt hálf tómlegt og ég hafði lítið að gera, beið bara eftir síðasta fréttatíma útvarpsins. Þá rölti Jón Gunnar yfir til mín með afganginn af freyðivíninu og spurði hvort við ættum ekki að skála í restunum. Svo spjölluðum við saman um eitthvað svo ómerkilegt að ég man ekkert hvað það var. Geir kallaði forvitinn af íþróttadeildinni og spurði hvað við værum að ræða svona merkilegt og Jón Gunnar svaraði af bragði: Dvergakast! Þeir sem þekkja til vita að starfsmenn íþróttadeildar eru ekki þeir hæstu í loftinu og við þetta svar varð mér á að skella upp úr. Geir tók skotinu eins og við var að búast, með uppgerðarsárindum og dramatískum leikþætti um að þetta hefði nú verið fyrir neðan beltisstað. Við hlógum svo að þessu öll. Góð leið til að enda árið 2002.

Þessi minning mín hljómar kannski eins og illa skrifað atriði úr sjónvarpsþætti. En hún er mér mikils virði. Sem starfsmaður Textavarpsins passaði ég illa inn í fréttastofu Sjónvarps. Mér fannst ég vera út úr að missa af Gamlársdagsfjörinu, rétt eins og fluga á vegg, og dálítið ein í heiminum þegar allir voru farnir. Jón Gunnar gaf sér tíma til að spjalla við fluguna á veggnum, stytti mér stundirnar á síðustu vaktinni og fékk mig til að brosa.

Nú er hann farinn á betri stað en ég á eftir filmusafnið mitt, þessa minningu sem fær mig alltaf til að brosa. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband