Minning um mann

Þegar fólk fellur frá finnst mér gott að hugsa um lífið sem sjónvarpsþátt. Persóna í sjónvarpsþætti er skrifuð út úr þættinum af því að leikarinn hefur fengið annað og betra hlutverk í öðrum þætti. Við þurfum kannski smá tíma til að venjast sjónvarpsþættinum með færri leikurum eða hugsanlega nýjum leikurum en við getum þó alla vega alltaf huggað okkur við að eldri upptökur eru til, hvort sem þær eru á dvd-diskum uppi í hillu hjá okkur eða í skjalageymslum og filmusöfnum framleiðendanna. Og svo kemur það fyrir að við fáum endursýningar endrum og sinnum.

Því er eins farið með raunveruleikann. Minningarnar eru upptökusafnið og það kemur fyrir að við röltum niður Memory Lane og upplifum endursýningu. Það hjálpar líka að hugsa um að vinur eða vandamaður hafi fengið nýtt og betra hlutverk annars staðar.

Í dag verður Jón Gunnar Grjetarsson jarðsunginn. Af þeim sökum hef ég dvalið á Memory Lane við og við síðustu daga. Ég þekkti hann ekki mjög mikið en við unnum saman og ég á eina minningu sem stendur upp úr.

Á Gamlársdag, að lokinni síðustu vakt ársins, tíðkast á fréttastofu Sjónvarpsins að skálað sé í freyðivíni og snittum. Árið 2002 vildi svo til að ég var að vinna í Textavarpinu, sem þá var inni á fréttastofu Sjónvarpsins. Mín vakt var til fjögur en fréttavaktinni lauk hins vegar um klukkan hálf tvö. Flestir voru farnir um tvöleytið en einhverra hluta vegna var Jón Gunnar áfram. Geir Magnússon íþróttafréttamaður var eftir inni á íþróttadeild að ganga frá einhverju en að öðru leyti voru allir farnir. Það var allt hálf tómlegt og ég hafði lítið að gera, beið bara eftir síðasta fréttatíma útvarpsins. Þá rölti Jón Gunnar yfir til mín með afganginn af freyðivíninu og spurði hvort við ættum ekki að skála í restunum. Svo spjölluðum við saman um eitthvað svo ómerkilegt að ég man ekkert hvað það var. Geir kallaði forvitinn af íþróttadeildinni og spurði hvað við værum að ræða svona merkilegt og Jón Gunnar svaraði af bragði: Dvergakast! Þeir sem þekkja til vita að starfsmenn íþróttadeildar eru ekki þeir hæstu í loftinu og við þetta svar varð mér á að skella upp úr. Geir tók skotinu eins og við var að búast, með uppgerðarsárindum og dramatískum leikþætti um að þetta hefði nú verið fyrir neðan beltisstað. Við hlógum svo að þessu öll. Góð leið til að enda árið 2002.

Þessi minning mín hljómar kannski eins og illa skrifað atriði úr sjónvarpsþætti. En hún er mér mikils virði. Sem starfsmaður Textavarpsins passaði ég illa inn í fréttastofu Sjónvarps. Mér fannst ég vera út úr að missa af Gamlársdagsfjörinu, rétt eins og fluga á vegg, og dálítið ein í heiminum þegar allir voru farnir. Jón Gunnar gaf sér tíma til að spjalla við fluguna á veggnum, stytti mér stundirnar á síðustu vaktinni og fékk mig til að brosa.

Nú er hann farinn á betri stað en ég á eftir filmusafnið mitt, þessa minningu sem fær mig alltaf til að brosa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband