Leyndir hæfileikar?

Um daginn ákvað ég að dusta rykið af gömlu áhugamáli. Ég tók fram blað og blýant og byrjaði að teikna. Svei mér þá, ef það leynist ekki bara lítill listamaður í mér. Ég ákvað að byrja á að teikna mína nánustu upp eftir ljósmyndum og ég held ég deili bara hæfileikum mínum með umheiminum hér. Teiknisnillingur? Dæmi hver fyrir sig:

Óli á Mallorca 2006

 


Slösuð

Í dag hnerraði ég svo harkalega að ég tognaði í náranum. Það var ekkert sérstaklega þægilegt.

Einskis nýtar staðreyndir

  • Það er skítt þegar ástandið er þannig að maður þorir ekki að blogga.
  • Það er skítt að vera með hálsbólgu.
  • Skyr með kjúkling út í getur verið herramanns matur.
  • Ég er með harðsperrur.

Ho ho ho... we say

ha ha ha ha ha ha... Lagið hans Barða í Laugagrdagslögunum í gær jók aldeilis kátínustuðulinn hjá familíunni í Maríubaug. Heldur betur! Hér með útnefni ég Barða í Bang Gang snilling aldarinnar. Snilldar lag, endalaust fyndið og pottþétt júróvisjón-formúla.

Þeir fýlupúkar og nöldurseggir sem hafa ekki enn frelsast og halda því fram að júróvisjón sé leiðinlegt hljóta að skipta um skoðun við að sjá kúkabrúna olíuborna strípalinga syngja hey hey hey we say ho ho ho undir trumbuslætti og taktföstu Ibiza-froðudiskóteks-júrótrash-teknó sem er ótrúlega grípandi, hvort sem manni líkar betur eða verr. Þeir sem geta ekki a.m.k. brosað út í annað yfir slíku eru algjörlega húmorslausir og ekki viðbjargandi á nokkurn hátt.


Sautl-

Grunnvatnið streymir um jarðveginn og seytlar smám saman út í ár og vötn. Grunnvatnsflöturinn lækkar á þurrkatímum en hækkar aftur þegar rignir.

Þennan fróðleik má finna í bókinni Landafræði - maðurinn, auðlindirnar, umhverfið en hún liggur einmitt opin fyrir framan mig í þessum skrifuðu orðum. Þessi misgagnlegi fróðleikur vakti þó ekki áhuga minn heldur rak ég augun í orðið seytlar. Það er skrifað með ufsiloni. Ég ætla ekkert að rengja stafsetningarkunnáttu höfundar umræddrar bókar enda er ég alls enginn sérfræðingur í notkun þessa annars ágæta stafs. Mínar ær og kýr eru blessaður viðtengingarhátturinn sem er það skemmtilegasta sem finnst í íslensku máli. Ásamt reyndar orðunum annar hvor, annar hver, sinn hvor og sinn hver. Þeim er nauðgað miskunnarlaust á degi hverjum í munni þúsunda samlanda minna.

En það er nú ekki það sem ég var að pæla. Málfræðinördinn í mér fór umsvifalaust að velta því fyrir sér hvaðan þetta blessaða ufsilon væri komið í sögninni að seytla. Sautl-? Hvað er nú það? Nú dauðsé ég eftir því að hafa skilað mömmu aftur orðsifjabókinni.

Þegar málfræðinördinn fer á flug á annað borð getur verið erfitt að hemja hann. Í miðri bloggfærslu skrifaði ég orðið málfræðinörd. Og svo skrifaði ég það aftur. Og svo í þriðja skiptið í því augnamiði að ræða um orðið. Nú er spegúlasjónin þessi: segir maður kannski nördið? Í hámarki nördaskaparins keyrði ég villupúkann sem bloggið býður upp á. Mér til nokkurrar furðu gerði herra Púki engar athugasemdir við orðið málfræðinördinn, merkilegt nokk. Hins vegar kviknuðu afar áberandi viðvörunarljós við orðið nördið. Þar höfum við það.

Já, svona getur maður stytt sér stundirnar úti á landi. Næst tekur við húslestur í baðstofunni og svo sest fjölskyldan fyrir framan útvarpið og horfir á það. Yfir og út.

P.s. Ef einhver hefur hugmynd um hvaðan ufsilonið í seytla kemur má sá hinn sami hafa samband.

P.p.s. Mig grunar að Anton Karl sé jafnvel enn meiri málfræðinörd en ég og hafi svar á reiðum höndum handa mér. Ég veit hins vegar ekki hvort hann les þetta.

P.p.p.s Herra Púki mótmælti orðinu ufsilon hástöfum. 


Hvar er Pollýanna?

Í allan dag hef ég verið að melta það með mér hvort ég sé í góðu eða vondu skapi. Á leiðinni í vinnuna í morgun var ég í nokkuð hlutlausu skapi, svo heyrði ég skemmtilegt lag og komst í rokna stuð. En svo kom ég í vinnuna og þá datt allt niður aftur. Pirringurinn hefur aukist með hverri mínútunni án þess að ég viti af hverju og ég hef reynt allt sem í mínu valdi stendur til að láta hluti ekki fara í taugarnar á mér. Með það að markmiði hef ég spilað skemmtilega lagið frá því í morgun mjög reglulega (hlustaði á það 8 sinnum í röð fyrir nokkrum mínútum - grínlaust!) til að líta á björtu hliðarnar. En nú bara get ég ekki meir. Ég er svoleiðis að tapa mér úr reiði að ekkert fær mér bjargað núna. Nema kannski kíló af lakkrís. En ég má ekki fá svoleiðis. Það er ekki nammidagur. Sjitt. Hvar er Pollýanna núna?

Ein ég sit og sauma...

...inní litlu húsi... Nei, ekki alveg. En ein ég sit á náttfötunum inni í, tja, frekar stóru húsi þótt aðeins brot af því sé í minni eigu. Í mér er flensuskítur, hiti og þreyta og afar mikil undrun yfir því hvað gerist úti í náttúrunni þegar maður er jafn langt frá mannabyggðum og ég.

Hér á miðhálendinu snjóar, takk fyrir takk! Mér varð litið út um gluggann þar sem ég sá fjöldann allan af hlussusnjókornum svífa um og lenda tignarlega á sólpallinum mínum. Þar sem ég er Vesturbæingur í húð og hár mætti með sanni segja að ég sé fiskur á þurru landi í svona aðstæðum. Það er varla að ég þekki snjó lengur. En svona er þetta, þegar maður flytur út á land þá þarf maður víst að venja sig við breyttar aðstæður. When in Rome...

Já, þannig er nú það, when in Grafarholt... þá er maður fyrir ofan snjólínu... 


Little Miss Not-Pretty

Sumir dagar eru verri en aðrir. Suma daga lít ég einstaklega vel út, geislar af mér fegurðin og yndisþokkinn alveg hreint svo fólk fellur hreinlega í stafi við að berja mitt snoppufríða andlit augum. En suma daga er skýjað í Sunnulandi. Ég lít út eins og berklasjúkur albínói, veit varla í hvorn fótinn á að stíga því þeir eru báðir vinstri fætur, horinn drýpur úr nefinu og augun eru rauð og bólgin svo það lítur út fyrir að ég hafi grenjað heilu og hálfu næturnar. Svoleiðis dagur er í dag.

Eftir átök síðustu daga, málun, pökkun, flutninga, pirring út í IKEA, skítaverslun allra landsmanna, er ég svo hrikalega bensínlaus að ég get varla hreyft fingurna á lyklaborðinu, hvað þá meira. Það er bara eitt sem mig langar að gera: sofa í heila öld eins og Þyrnirós forðum. Ekki furða að sú hafi verið glæsileg enda fékk daman sinn bjútí blund og gott betur.

Ef einhver finnur hjá sér ómælda þörf fyrir að taka upp úr kössum uppi á miðhálendi má viðkomandi vinsamlegast hafa samband. Þeir sem ekki finna til slíkrar þarfar gætu hugsanlega haft gaman af því að þrífa tóma íbúð. Einnig hægt að hafa samband út af því. Nú, þeir sem ekki eru í tiltektar- og þrifnaðarstuði eru kannski hlynntari dekri og unaði. Ég er algjörlega móttækileg fyrir góðu nuddi og dúlleríi þannig að endilega hafið samband.

Ef svo illa vill til að enginn er til í neitt af ofantöldu má sá hinn sami endilega hafa samband við IKEA og segja þeim illa skipulögðu stjórnendum sem starfa þar að þeir megi fara norður og niður og loka búðinni. Það er hvort eð er aldrei neitt til þar. 15.000 fermetrar fullir af engu er bara sóun á fermetrum. Ef verslunin er mæld í rúmmetrum er tölfræðin enn sorglegri. 


Lítil dæmisaga um hreinlæti

Fjölskyldan á Kapló er ekki upp á marga fiska þessa dagana. Það ættu lesendur bloggsins hans Óla að vita. Heilsufarið er á við meðal elliheimili og það er nú ekkert sérstaklega gott á þessum síðustu og verstu tímum þegar flutningar út á land eru framundan og heljarinnar ósköp sem þarf að gera.

En þetta er nú ekki alslæmt. Sá stutti er orðin alveg hress og kenndi sér einskis meins um helgina annars en frekju, leiða og leti. Drengurinn varð fyrir því óláni að fá lungnabólgu og komst því ekki í leikskólann í heila viku. Honum þótti það nú ekkert hrikalegt því hann fékk allt sem hann vildi upp í hendurnar og fékk að horfa á nákvæmlega það sjónvarpsefni sem hann vildi nákvæmlega þegar hann vildi.

En þegar hitinn lækkaði ákvað móðir hans hin illa að nú væri nóg komið af dekri og vogaði sér nokkrum sinnum að segja nei þegar beðið var um sjónvarpsgláp. Snáðinn brást hinn versti við og var ekkert á þeim buxunum að gefast upp. Eftir nokkrar svona rimmur var hann orðinn þreyttur og pirraður á að vera heima. Þá vildi nú ekki betur til en svo að faðir hans var kominn með 40 stiga hita og óráð og móðirin var hálf sloj, svo ekki sé nú minnst á að hún hafði ekki sofið í viku.

En minn maður dó ekki ráðalaus. Hann reyndi að finna sér ýmislegt til dundurs og fékk móður sína til að missa andann eitt augnablik. Þannig vildi til að ég hafði ekki heyrt í honum í smá stund svo að ég stóð upp til að athuga málið. Þegar ég kom fram á gang sá ég einn, ekki háan í loftinu, standa inni á baði með bros allan hringinn. Hann leit upp og tilkynnti mér afar stoltur með klósettburstann í höndunum að hann væri að sópa!

Það er ekki að spyrja að dugnaðinum í honum... 


Góðan dag, glaðan hag...

...reyndar er þetta ekkert gríðarlega góður dagur. Klukkan er 17.24 og ég er enn í náttfötunum, með rauð og bólgin augu, gamlar maskaraklessur á víð og dreif um smettið og bólu á enninu. Svefnvana og subbuleg tók ég á móti nýjum degi í morgun þegar sonur minn ákvað að nú væri nóg komið af hangsi í bólinu vel fyrir klukkan 8 í morgun. Ég get svarið það, stundum er ég sannfærð um að ég eigi ekkert í barninu. Barn sem ekki kann að meta góðan 12-14 tíma svefn getur bara ekki átt sameiginleg gen með mér.

En hvað um það. Við héldum upp á afmæli stráksa í gær og rétt áður en fjörið átti að byrja ákvað minn maður að sýna flensueinkenni. Svo fylltist íbúðin af gestum og drengurinn varð aumari með hverri mínútunni. Hann vildi ekki köku og ekki súkkulaði. Það eina sem hann vildi var að sitja í fanginu á pabba sínum þangað til hann sofnaði. Svo svaf hann yfir herlegheitin.

Um kvöldið hresstist hann örlítið en hafði þó ekki áhuga á kóksopa og súkkulaði. Hann sofnaði á nokkuð eðlilegum tíma og örmagna foreldrarnir fylgdu í kjölfarið um klukkutíma síðar. En upp úr miðnætti ákvað herra tveggja ára að vakna. Í hans huga var kominn dagur og hann ætlaði sko heldur betur að fara fram í stofu að horfa á ALLT DVD safnið sitt. Drengurinn tók engum sönsum og eyddi um klukkutíma í hávært stríð við foreldra sína um hvort það væri dagur eða ekki. Á endanum sættist hann á að liggja í rúminu og hlusta á föður sinn lesa Stúf aftur og aftur... og aftur.

Þrátt fyrir þetta miðnæturævintýri var hann útsofinn fyrir klukkan 8 í morgun. Hvernig má það vera? Ég hef fengið það staðfest frá lækni að ég þurfi a.m.k. 10 tíma svefn. Hvernig gat ég þá framleitt svona morgunhana?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband