Færsluflokkur: Bloggar
5.8.2007 | 09:05
Ekki með heilaæxli...
...og ekki heldur heilablóðfall. Eftir ríflega tveggja vikna svæsinn hausverk náði ég loks sambandi við lækni sem benti mér á að ég væri með mígreni. Ég hélt nú ekki, ég var alveg sjor á að þetta væri ennisholubólga og ég ætlaði mér í myndatöku. Ég fékk lyfseðil fyrir ofurdópi og sýklalyfjum, beiðni fyrir myndatöku og símatíma hjá heimilislækninum mínum og niðurstaðan var sú að ennisholurnar voru eins hreinar og og þær geta orðið. Heimilislæknirinn þorði því ekki annað en að senda mig á bráðamóttökuna þar sem ég var skoðuð í bak og fyrir, mynduð með og án litarefnis, stungin eins og nálapúði og spurð spjörunum úr. Þar sem ekki kom í ljós að ég væri með heilaæxli eða blæðingu var sú "skynsamlega" ákvörðun tekin að ég væri með svo svæsna vöðvabólgu að hún ylli stingjum á bak við augun. Ég kaupi það svona rétt mátulega í ljósi þess að ég er mun skárri af vöðvabólgu en oft áður. Sem betur fer er þessi óútskýrði hausverkur á förum en ég á þó alvöru dóp ef ske kynni að hann gerði vart við sig aftur.
Sumarfríið mitt varð eitthvað endasleppt út af þessum veikindum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2007 | 10:30
Flatrassar og fleira
Við mér blasir nú einhver sá flatasti rass sem ég hef augum litið frá því ég var í Hagaskóla. Flatrassar eru fyndnir en einhverra hluta vegna fara þeir samt stundum í taugarnar á mér, einkum og sér í lagi þegar þeir eru algjörlega úr öllu hlutfalli við "umhverfið". Umræddur rass er að sjálfsögðu ekki í eigu undirritaðrar enda er ég stoltur eigandi kúlubossa sem hefur styrkst alveg ólýsanlega með erfiðisæfingum síðustu mánuða.
Annað sem fer klikkaðslega í taugarnar á mér er að komast ekki í morgunkaffið mitt á réttum tíma í vinnunni. Meltingartruflanir og pirringur í morgunsárið skrifast alfarið á reikning vinnufélaga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2007 | 12:05
Geisp og gap
Geispi er leiðinlegt fyrirbæri. Eftir einn geispa er bara hreinlega ekki hægt að stoppa. Nú sit ég við borðið mitt í vinnunni og býð gestum og gangandi fríar hálskirtlaskoðanir þar sem ég gapi út í loftið endalaust. Reyndar er ekki mikið að sjá í þessum skoðunum þar sem kirtlarnir voru teknir úr mér fyrir 12 árum. Nú jæja, það er þá bara endajaxlaskoðun eða eitthvað. Mig grunar að einn slíkur sé að lauma sér upp á neðri hæðinni.
Annars er fátt um fína drætti í heimi Sunnunnar þessa dagana. Ólinn kominn á næturvaktatörn og Valur hefur því tekið upp á pabba-vökum á nóttunni, móður hans til mikillar mæðu. Þessi pabbalingur virðist hafa innbyggðan skynjara, blátönn eða eitthvað álíka, sem segir honum hvort pabbi hans er heima á nóttunni eður ei. Þegar viðvörunarbjöllurnar fara í gang tekur hann nokkrum sinnum á nóttu upp á því að veina hástöfum á pabba sinn, sem auðvitað heyrir ekki bofs í barninu, og kann ekkert að meta leiðindakellinguna sem birtist í dyragættinni úfin og þreytt og segir honum að fara aftur að sofa. Kann einhver að laga pabbaveiki?
Man einhver eftir Reach tannbursta-auglýsingum frá því snemma á 10. áratugnum? Kallinn sem hafði hjörulið til að opna munninn... djöfull væri gott að hafa einn slíkan núna, þá gæti ég geispað aðeins betur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.6.2007 | 22:26
Ég vann!
Vissulega eru það blendnar tilfinningar að hafa unnið veðmálið. Ég veðjaði á tap af því að mér þótti það vera auðfengin leið til að eignast bjór án þess að fara í Ríkið. En KR heldur áfram á sorglegri braut sem virðist ekki stefna neitt annað en beint til glötunar. Eða í fyrstu deildina. Jæja, skammt á milli skíts og kúks...
Á föstudaginn var Valur veikur þannig að ég komst ekki í vinnuna til að hirða góssið en vinnufélaginn var svo vinsamlegur að senda mér mynd af vinningnum. Orðsendingin er nokkuð merkileg...
... Af hverju hann fann sig knúinn til að fela orðið stórt með stjörnum er mér algjörlega óskiljanlegt. Það er ekki eins og það sé hægt að lesa neitt annað úr þessu en KR er stórt lið sem getur ekki neitt.
En það er sko eins gott að bjórinn verði enn á borðinu mínu þegar ég mæti til vinnu á morgun. Eftir þessa helgi í vítispínu er algjörlega nauðsynlegt að fá sér aðeins í litlu tána.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.6.2007 | 17:25
Hvað eigum við að kalla okkur?
Nú erum við í mikilli krísu. Þegar við flytjum út á land þá veit ég ekkert hvað við eigum að kalla okkur. Síðustu 3 árin hef ég oft talað um Kapló-fjölskylduna eða jafnvel Kapló-gengið en í haust kemur það engan veginn til með að ganga upp í ljósi þess að við komum alls ekki til með að búa þar. Nýi staðurinn, Maríubaugur, býður ekki upp á jafn þægilegt gælunafn. Hugmyndirnar sem ég er komin með eru eftirfarandi.
- Maró-fjölskyldan
- Maríó-gengið
- Baugs-fjölskyldan
Fyrsta tillagan er nú bara hreint og beint asnaleg og þarf ekki að eyða frekari orðum í hana. Tillaga númer tvö er kannski dálítið skondin en gefur kannski örlítið ranga mynd af vaxtarlagi og klæðarburði fjölskyldunnar. Svo er eitthvað hjákátlegt að tala um Maríó-gengið þegar Súper fer ekki á undan. Nú, og þriðja tillagan einfaldlega villandi og gefur til kynna að við séum allt önnur og umdeildari fjölskylda.
Hvað gera bændur þá?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.6.2007 | 13:43
Ó guð vors lands...
Í gær fór ég á sumarhátíð Vesturborgar. Skrúðganga, grillaðar pulsur og skemmtiatriði. Eldri krakkar leikskólans sungu nokkur lög, meðal annars þjóðsönginn, geri aðrir betur!
Úr sólskermum himnanna flýta sér samt...
Ég er ekki frá því að þessi útgáfa sé bara miklu betri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2007 | 15:43
Sjitt maður
Jæja, svo bregðast krosstré sem önnur tré. Frá og með nóvember verð ég officially úthverfapakk. Leið mín liggur upp í Grafarholt þar sem Kapló-fjölskyldan hefur fjárfest í sólpalli. Mjög flottum sólpalli. Íbúð fylgir. Vinir og kunningjar eiga sjálfsagt eftir að syrgja það að fá ekki reglulegar fréttir af útgáfumálum Svölu Björgvins.
Annars veðjaði ég í vinnunni í dag, ég fæ að öllum líkindum kippu af Kalda 19. júní. Veðjaði við vinnufélaga minn um úrslit í leik KR og FH 18. júní. Ég veðjaði á tap, vinnufélaginn á sigur. En men ó men hvað ég verð glöð ef ég þarf að borga honum kippuna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.5.2007 | 22:55
Á ég að elska'nn eða á ég ekki...
Þetta söng ég oft þegar ég var yngri. Yfirleitt hafði ég þó engan sérstakan í huga þegar ég söng, gaulaði meira svona mér til ánægju og yndisauka en foreldrum mínum til armæðu og pirrings. En það var nú ekki það sem ég ætlaði að blogga um.
Þetta lag hefur komið nokkrum sinnum upp í huga mér síðustu daga og alltaf í tengslum við þá hugsun um hvort ég eigi skella mér í blogg-streðið á nýjan leik. Þessi færsla er því prófraun á eigin leti. Á ég að blogga eða á ég ekki... bloggið getur breyst í þunga hlekki... ég er ekki gerð til að blogga í blokk... Nei, nú varð þetta of súrt.
En sjáum til. Kannski hef ég enn eitthvað ómálefnalegt og undarlegt fram að færa í netheimum. Kannski er ég ekki alveg steríl vísitöluhúsmóðir úr Vesturbænum sem getur ekki sagt frá neinu öðru en bleyjuafrekum sonarins og hvernig uppvaskið gangi. (Og bæ ðe vei, það gengur eins og í lygasögu eftir að mín splæsti í uppþvottavél fyrir nokkrum mánuðum)
Já, sjáum til. Kannski er ég ekki dauð úr öllum æðum. Og þó, sú staðreynd að ég skuli hefja blogg á nýjan leik rétt upp úr klukkan 11 á föstudagskvöldi segir nú meira um mig en margt annað. Það segir aðallega tvennt: 1) ég lifi afar óspennandi lífi og 2) ég verð nauðsynlega að skella mér í bólið núna ef ég ætla í ræktina í fyrramálið.
Segjum það í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)