Færsluflokkur: Bloggar
27.9.2007 | 13:42
2 ár
Í dag eru 2 ár síðan lítill maður kom í heiminn. Vá hvað það var gaman! Ég trúi varla að það séu liðin 2 ár. Hann vakti okkur í morgun og fékk pakka; brunabíl og Monsters Inc. Þolinmæðin eftir að bílnum yrði náð úr kassanum var ekki mikil (hvaðan skyldi hann hafa það?) og svo vildi hann horfa á bangsana (bangsar, skrímsli... what's the diff...). Svo tók hann út smá morgungeðvonsku og varð hundfúll þegar hann mátti ekki taka Elvis brunavörð með inn í leikskólann. Hann var þó fljótur að jafna sig og kvaddi móður sína með verulega blautum kossi annars hugar því honum stóð til boða að fá rúsínur í morgunmat.
Þegar Valur fæddist og fyrstu vikurnar/mánuðina á eftir fannst mér allt vera svo ógurlega flókið og erfitt. Ég hélt alltaf að þetta yrði auðveldara með aldrinum (þ.e. eftir því sem hann yrði eldri - ekki ég) en svo hefur það bara verið þannig að þegar maður lærir á einhver hegðunarmunstur þá birtast bara fimm ný í viðbót þannig að ég er sífellt að læra. Þegar hann var kornabarn þurfti ég að sætta mig við það að stundum grét hann og ég vissi ekki af hverju. Og ósköp lítið við því að gera. Nú veit ég oftast af hverju hann verður fúll en þarf að díla við þá staðreynd að hann hefur stundum ekki minnsta áhuga á að taka rökum eða bara að hlusta á mig.
En þótt við séum ekki alveg sammála alltaf þá er hann samt bestur í heiminum og á það til að segja "knúsa mömmu". Það er bara ekki hægt að segja nei við svoleiðis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.9.2007 | 09:29
Búin með Loforðið
Jæja, þá er ég búin með Loforðið. Hvarf algjörlega inn í bókina og týndi mér svo í ýmsum vangaveltum inn á milli og að lestri loknum. Boðskapur sögunnar er einfaldur og fallegur og á erindi við hvern sem er.
Þetta er í fyrsta skipti sem ég les skáldsögu eftir manneskju sem ég þekki, ef frá eru taldar nokkrar barnabækur sem frænka mín skrifaði fyrir mörgum árum. Þá var ég sjálf barn og sögurnar ekki þess eðlis að hægt væri að lesa mikið milli línanna. En upplifun mín af Loforðinu er öðruvísi en af nokkurri annarri bók sem ég hef lesið. Hugurinn var á milljón að tengja við raunveruleikann og lesa milli línanna. Sumt fannst mér ég kannast mikið við, lýsingar sem ég þóttist vera viss um að hafa heyrt áður og persónusköpunin var einstök en samt eins og ég þekkti sum karakterseinkennin af eigin raun. Kannski las ég meira milli línanna en var að finna þarna, en svona er þetta bara. Þetta þýðir bara að sagan hefur haft djúpstæð áhrif.
Ég ætla að taka Loforðið mér til fyrirmyndar. Meira vil ég ekki segja, lesið bara bókina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2007 | 20:07
Vúhú!
Maður gærkvöldsins er klárlega dyravörðurinn á Prikinu sem hleypti mér fram fyrir röðina og spurði mig um skilríki. Ég dreg því þá ályktun að ég líti út eins og 19 ára ofurskutla. Jeij!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2007 | 16:41
Loforðið lofar góðu
Það er ekki á hverjum degi sem maður er að springa úr stolti yfir vinum sínum en ég upplifði einn slíkan í gær. Mér barst til eyrna í vinnunni að Hrund vinkona fengi afhent íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bókina Loforðið. Ég var ótrúlega upp með mér yfir að þekkja svona hæfileikaríkan rithöfund.
Kynningareintak bókarinnar þvældist milli manna inni á fréttastofu þannig að ég nældi mér í það og byrjaði að lesa. Og svo las ég. Og svo las ég meira. Og svo var bókin tekin af mér til að fréttamennirnir gætu kynnt sér hana og tekið viðtal við höfundinn. Það er sko alveg á hreinu að ég þar að koma mér út í bókabúð og fjárfesta í eintaki. Snilldar byrjun og Hrund bregst ekki bogalistin frekar en fyrri daginn. Snilldar penni.
En áður en þessi færsla verður væmnari en bleikt kandífloss þá ætla ég að koma hamingjuóskum áleiðis:
Elsku Hrund, innilega til hamingju með verðlaunin! Ég rétt missti af þér í gær, fór úr vinnunni hálftíma áður en þú komst í viðtal í Síðdegisútvarpið, þannig að þú verður bara að láta þér nægja svona bloggknús þangað til ég hitti þig næst.
Nýr höfundur hlýtur barnabókaverðlaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.8.2007 | 21:22
Lögfræðingur finnur upp geimflaug
Í dag er súr dagur. Þegar maður lifir og hrærist í gallsúrum vefforritunarkóðum í heilan dag án þess að skilja sem svo mikið sem einn staf þá getur útkoman orðið vægast sagt vafasöm geðheilsa. Ég er jafnsúr og nýju auglýsingarnar frá Freyju um eitthvað nýtt gotterí. Hér kemur ein slík:
Sunna er fín frú
sem forritar ekki nú
en langar í kókósú.
Ef einhver getur frætt mig um hvar kókósú fæst eða hvað það er býð ég vegleg verðlaun.
Ég hef áhyggjur af sjálfri mér. Ég er orðin svo súr að ég stefni hraðbyri að því að verða gegnsteiktur forritunarnörd. Við erum í kappi við tímann í vinnunni að koma nýju fréttakerfi í gagnið og svona hér um bil fallin á tíma. Magnið af kóki sem rennur niður kverkar okkar nördanna er sennilega ómælanlegt og prufufréttirnar sem hafa fengið að fara inn í nýja kerfið hafa dálítið spes fyrirsagnir... svo ekki sé meira sagt.
Teiknimyndafígúra gerist páfi
Flestir sjá eftir sveindómnum
Glæpaforingi fer í megrun
Satan tilbeðinn í Hafnarfirðinum
Einn fréttamaður rak augun óvart í síðustu fyrirsögnina okkar og vildi óður og uppvægur senda myndatökumann á staðinn. Að vissu leyti sé ég eftir að hafa leiðrétt misskilninginn...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.8.2007 | 17:24
Komment í lagi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.8.2007 | 19:59
Snöggsteikt að hætti Sunnu, II. hluti
Mér til mikillar furðu virðist vera takmarkaður áhugi á að vita um afdrif Ólans eftir brútal meðferð um daginn. En ég læt nú söguna flakka engu að síður.
Upp á síðkastið hefur Óli kvartað sáran undan bakverkjum, búinn að láta mynda sig í bak og fyrir, aðallega þó bak, og láta lækna spá og spekúlera án nokkurrar sannfærandi niðurstöðu. Um daginn ákvað ég hins vegar að vera einstaklega góð við kallinn og lækna á honum bakið í eitt skipti fyrir öll. Leið mín lá í Lyfju til að kaupa vöðvabólgu-grjóna-púða fyrir sjálfa mig. Þar rak ég augun í stórsniðugan plástur sem átti að láta vöðva- og liðverki í baki hverfa eins og dögg fyrir sólu með sérstakri hitameðferð. Sá galli var þó á gjöf Njarðar að leiðbeiningarnar voru á þýsku og hvergi kom fram hvað plásturinn átti að vera lengi á. Það litla sem ég vissi var að plásturinn innihélt cayenne-pipar.
Ég gekk hreint til verks, límdi plásturinn á garminn og lét hann svo svitna. Eftir um 30 mínútur kvartaði hann undan óþægindum þannig að við ákváðum rífa plásturinn af og kom þá í ljós rauður brunablettur á bakinu.
Sjúklingurinn stundi þungan og kvartaði sáran og lét eins og hann væri nýkominn úr meiriháttar aðgerð. En Sunna dó ekki ráðalaus. Ég vippaði mér upp á eldhúskoll inni í svefnherbergi, rótaði í gömlu óléttudóti og fann á augabragði gamla bakbeltið mitt síðan ég var ólétt og ónýt. Því næst skundaði ég inni í eldhús og reif fram poka með frystu grænmeti, tróð honum inn í hólfið fyrir hitapokann og vafði utan um fatlafólið. Eftir um hálftíma var hann as good as new.
Já, svona var nú það. Glóðarsteiktur Óli var því algjör mistök af minni hálfu. En snarræði mitt bjargaði honum frá stórbruna. Hugsið ykkur bara hvað ég gæti gert í Grikklandi!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2007 | 11:19
Afrek síðustu daga
Í fyrradag afrekaði ég að steikja sambýlismann minn. Ég kryddaði hann rækilega með cayenne-pipar og grillaði svo leiftursnöggt á honum bakið þannig að það stórsá á honum. Réttinn bar ég svo fram með frystu grænmeti. Grilluð Óla-lund að hætti Sunnu, jömmí!
Þeir sem hafa áhuga á að heyra hver ástæða þessarar sérkennilegu eldamennsku er verða að leggja fram formlega beiðni í kommentakerfinu hjá mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2007 | 08:52
Allur lurkum laminn geng ég leiður heim til mín...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2007 | 12:26
Versló '07
Jæja, þá er Versló '07 að renna sitt skeið á enda. Hið árlega Versló-partý var haldið í gær með fjöldasöng, varðeld, viðbrenndum sykurpúðum og drykkju og tókst bara nokkuð vel held ég. Öskubuska lét sig þó hverfa upp úr miðnætti svo að segja alveg edrú en með höfuðverk og fjölmargar hugsanir í kollinum. Hildur Emma krúttbolla mætti í partýið og skríkti af gleði yfir hljómfagurri rödd minni sem kyrjaði barnagæluna um Samma brunavörð.
Er búin að gera samkomulag við Hjördísi um að fara að hlaupa reglulega saman. Til stóð að fara í hádeginu í dag en Hjördís kvaddi mig rám og ölvuð í gær og sagði "Eigum við að hafa það klukkan 1 í staðinn?" Mig grunar að skokkið okkar eigi eftir að færast eitthvað aðeins til á dagskránni í dag þar sem hún er örugglega með nokkra timburmenn í heimsókn fram eftir degi.
Jæja, svo mörg voru þau orð að sinni. Góðar stundir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)