30.12.2007 | 13:13
Hólí mólí
Sjitturinn titturinn og allt það. Klukkan er korter í áramót og áður en ég veit af verður klukkan orðin korter í afmæli. Árið 2007 næstum búið og árið 2008 alveg að koma. Hvernig gerðist þetta eiginlega??? Og ég ekki búin að gera neitt af viti á árinu... Í gær var bara október.
Árið 2007 var í minningunni óttaleg flatneskja og lítið markvert sem gerðist í mínu lífi. Og þó... við fluttum upp á miðhálendi. Sem stendur velti ég því fyrir mér hvort það hafi verið heimskulegasta ákvörðun lífs míns. Hér er alltaf rok og skítaveður. Það liggur við að maður kalli út björgunarsveitirnar þar sem jólaskreytingarnar á pallinum virðast vera að fara til fjandans. En þær (björgunarsveitirnar, ekki jólaskreytingarnar) eru víst fastar uppi á Langjökli þar sem einhverjar mannvitsbrekkur eru í göngutúr. En já, sum sé, flutningar einn af há(lág-?)punktum ársins.
Tækjafríkið ég verð nú líklega að setja tækjakaup fjölskyldunnar ofarlega á lista yfir markverðustu punkta ársins. Sumir myndu segja að bílakaup væru stór áfangi en mér finnst miklu merkilegra að ég keypti mér flatskjá í gær. Bíllinn er nú líka bara yfirbyggt reiðhjól, eins og Óli segir, þannig að flatskjárinn er merkilegri.
Annars held ég að persónulegur hápunktur ársins sé New York ferðin mín í september. Frábært veður, frábær félagsskapur, frábær matur, frábær skemmtun og mikilvægast af öllu: ég fann aftur pæjuna í mér. Hún hafði týnst fyrir allnokkru og virtist bara hreint ekki ætla að koma í leitirnar aftur. En þökk sé vinkonum mínum, Hildi, Jóhönnu, Carrie Bradshaw og Victoriu tókst mér að lappa upp á pæjuna þannig að útkoman var bara alveg hreint ágæt.
Já, og það minnir mig á annan hápunkt ársins. Í apríl hóf ég afar mikið átak með þeim afleiðingum að ég varð sterk og stælt og nokkur kíló fuku út í veður og vind. Mig grunar reyndar að ég sé búin að éta allt á mig aftur um jólin en þá er bara að drífa sig aftur í ræktina. Lífið er endalaus megrun.
Árið 2007 átti sínar lægðir líka, mikil togstreyta og valkvíði hrjáði mig á árinu og óvissa um hvað ég átti til bragðs að taka. Ákvörðun var þó tekin á haustmánuðum og ég held að ég hafi valið rétt á endanum.
Ég vona að árið 2008 verði betra en árið 2007. Ég er búin að ákveða aðal áramótaheitið mitt en ég veit að það á eftir að reynast þrautin þyngri að fylgja því eftir. Hvert heitið er vil ég ekki upplýsa því það myndi einnig veita upplýsingar um hvað ég hef verið sorgleg hingað til að fylgja því ekki eftir. Um síðustu áramót strengdi ég þess heit að taka líkamann í gegn og ég gerði það. Nú er komið að andlegu hliðinni, allsherjar yfirhalning þar, takk fyrir takk. Að auki ætla ég að láta gamlan draum rætast. Það þýðir ekkert að sitja bara á rassinum og væla. Þið vitið, þetta með Múhammeð og fjallið og allt það...
Takk fyrir tvöþúsundogsjö. Yfir.
Fröken Miðhálendi.is
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.