22.10.2007 | 12:10
Little Miss Not-Pretty
Sumir dagar eru verri en aðrir. Suma daga lít ég einstaklega vel út, geislar af mér fegurðin og yndisþokkinn alveg hreint svo fólk fellur hreinlega í stafi við að berja mitt snoppufríða andlit augum. En suma daga er skýjað í Sunnulandi. Ég lít út eins og berklasjúkur albínói, veit varla í hvorn fótinn á að stíga því þeir eru báðir vinstri fætur, horinn drýpur úr nefinu og augun eru rauð og bólgin svo það lítur út fyrir að ég hafi grenjað heilu og hálfu næturnar. Svoleiðis dagur er í dag.
Eftir átök síðustu daga, málun, pökkun, flutninga, pirring út í IKEA, skítaverslun allra landsmanna, er ég svo hrikalega bensínlaus að ég get varla hreyft fingurna á lyklaborðinu, hvað þá meira. Það er bara eitt sem mig langar að gera: sofa í heila öld eins og Þyrnirós forðum. Ekki furða að sú hafi verið glæsileg enda fékk daman sinn bjútí blund og gott betur.
Ef einhver finnur hjá sér ómælda þörf fyrir að taka upp úr kössum uppi á miðhálendi má viðkomandi vinsamlegast hafa samband. Þeir sem ekki finna til slíkrar þarfar gætu hugsanlega haft gaman af því að þrífa tóma íbúð. Einnig hægt að hafa samband út af því. Nú, þeir sem ekki eru í tiltektar- og þrifnaðarstuði eru kannski hlynntari dekri og unaði. Ég er algjörlega móttækileg fyrir góðu nuddi og dúlleríi þannig að endilega hafið samband.
Ef svo illa vill til að enginn er til í neitt af ofantöldu má sá hinn sami endilega hafa samband við IKEA og segja þeim illa skipulögðu stjórnendum sem starfa þar að þeir megi fara norður og niður og loka búðinni. Það er hvort eð er aldrei neitt til þar. 15.000 fermetrar fullir af engu er bara sóun á fermetrum. Ef verslunin er mæld í rúmmetrum er tölfræðin enn sorglegri.
Athugasemdir
ég held að það sé líka veðrið sem lætur mann líta illa út í dag - ég er mjög bjúguð og föl líka.
Ég er alveg til í að hjálpa þér eitthvað meira, hvort sem er á nýja staðnum eða Kapló. Láttu bara vita. Mér finnst alveg gaman að raða í skápa og er liðtæk með tusku :) ég er líka alltaf til í dekur, stelpustundir, bara svona svo þú vitir það.
Þegar maður á slæma daga á maður að gefa sér nokkur lítil dekur. Fá sér uppáhaldsnammi, fara í heitt bað og svo framvegis - búa til tíma mannstu :) Við erum okkar eigin gæfu smiðir, hehe.
Hjördís (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 17:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.