8.10.2007 | 14:15
Lítil dæmisaga um hreinlæti
Fjölskyldan á Kapló er ekki upp á marga fiska þessa dagana. Það ættu lesendur bloggsins hans Óla að vita. Heilsufarið er á við meðal elliheimili og það er nú ekkert sérstaklega gott á þessum síðustu og verstu tímum þegar flutningar út á land eru framundan og heljarinnar ósköp sem þarf að gera.
En þetta er nú ekki alslæmt. Sá stutti er orðin alveg hress og kenndi sér einskis meins um helgina annars en frekju, leiða og leti. Drengurinn varð fyrir því óláni að fá lungnabólgu og komst því ekki í leikskólann í heila viku. Honum þótti það nú ekkert hrikalegt því hann fékk allt sem hann vildi upp í hendurnar og fékk að horfa á nákvæmlega það sjónvarpsefni sem hann vildi nákvæmlega þegar hann vildi.
En þegar hitinn lækkaði ákvað móðir hans hin illa að nú væri nóg komið af dekri og vogaði sér nokkrum sinnum að segja nei þegar beðið var um sjónvarpsgláp. Snáðinn brást hinn versti við og var ekkert á þeim buxunum að gefast upp. Eftir nokkrar svona rimmur var hann orðinn þreyttur og pirraður á að vera heima. Þá vildi nú ekki betur til en svo að faðir hans var kominn með 40 stiga hita og óráð og móðirin var hálf sloj, svo ekki sé nú minnst á að hún hafði ekki sofið í viku.
En minn maður dó ekki ráðalaus. Hann reyndi að finna sér ýmislegt til dundurs og fékk móður sína til að missa andann eitt augnablik. Þannig vildi til að ég hafði ekki heyrt í honum í smá stund svo að ég stóð upp til að athuga málið. Þegar ég kom fram á gang sá ég einn, ekki háan í loftinu, standa inni á baði með bros allan hringinn. Hann leit upp og tilkynnti mér afar stoltur með klósettburstann í höndunum að hann væri að sópa!
Það er ekki að spyrja að dugnaðinum í honum...
Athugasemdir
bwwaaahahahahaha !!!!
Hrund (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 22:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.