30.9.2007 | 17:38
Góðan dag, glaðan hag...
...reyndar er þetta ekkert gríðarlega góður dagur. Klukkan er 17.24 og ég er enn í náttfötunum, með rauð og bólgin augu, gamlar maskaraklessur á víð og dreif um smettið og bólu á enninu. Svefnvana og subbuleg tók ég á móti nýjum degi í morgun þegar sonur minn ákvað að nú væri nóg komið af hangsi í bólinu vel fyrir klukkan 8 í morgun. Ég get svarið það, stundum er ég sannfærð um að ég eigi ekkert í barninu. Barn sem ekki kann að meta góðan 12-14 tíma svefn getur bara ekki átt sameiginleg gen með mér.
En hvað um það. Við héldum upp á afmæli stráksa í gær og rétt áður en fjörið átti að byrja ákvað minn maður að sýna flensueinkenni. Svo fylltist íbúðin af gestum og drengurinn varð aumari með hverri mínútunni. Hann vildi ekki köku og ekki súkkulaði. Það eina sem hann vildi var að sitja í fanginu á pabba sínum þangað til hann sofnaði. Svo svaf hann yfir herlegheitin.
Um kvöldið hresstist hann örlítið en hafði þó ekki áhuga á kóksopa og súkkulaði. Hann sofnaði á nokkuð eðlilegum tíma og örmagna foreldrarnir fylgdu í kjölfarið um klukkutíma síðar. En upp úr miðnætti ákvað herra tveggja ára að vakna. Í hans huga var kominn dagur og hann ætlaði sko heldur betur að fara fram í stofu að horfa á ALLT DVD safnið sitt. Drengurinn tók engum sönsum og eyddi um klukkutíma í hávært stríð við foreldra sína um hvort það væri dagur eða ekki. Á endanum sættist hann á að liggja í rúminu og hlusta á föður sinn lesa Stúf aftur og aftur... og aftur.
Þrátt fyrir þetta miðnæturævintýri var hann útsofinn fyrir klukkan 8 í morgun. Hvernig má það vera? Ég hef fengið það staðfest frá lækni að ég þurfi a.m.k. 10 tíma svefn. Hvernig gat ég þá framleitt svona morgunhana?
Athugasemdir
Geri ráð fyrir því að þessi læknisstaðfesting sé um það bil 20 ára gömul!
sn (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 19:31
Nei, þessi læknisstaðfesting er bara frá því síðasta vetur. Ég þarf einfaldlega bara meiri svefn en aðrir.
Sunna Mímisdóttir, 1.10.2007 kl. 09:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.