5.7.2007 | 12:05
Geisp og gap
Geispi er leiðinlegt fyrirbæri. Eftir einn geispa er bara hreinlega ekki hægt að stoppa. Nú sit ég við borðið mitt í vinnunni og býð gestum og gangandi fríar hálskirtlaskoðanir þar sem ég gapi út í loftið endalaust. Reyndar er ekki mikið að sjá í þessum skoðunum þar sem kirtlarnir voru teknir úr mér fyrir 12 árum. Nú jæja, það er þá bara endajaxlaskoðun eða eitthvað. Mig grunar að einn slíkur sé að lauma sér upp á neðri hæðinni.
Annars er fátt um fína drætti í heimi Sunnunnar þessa dagana. Ólinn kominn á næturvaktatörn og Valur hefur því tekið upp á pabba-vökum á nóttunni, móður hans til mikillar mæðu. Þessi pabbalingur virðist hafa innbyggðan skynjara, blátönn eða eitthvað álíka, sem segir honum hvort pabbi hans er heima á nóttunni eður ei. Þegar viðvörunarbjöllurnar fara í gang tekur hann nokkrum sinnum á nóttu upp á því að veina hástöfum á pabba sinn, sem auðvitað heyrir ekki bofs í barninu, og kann ekkert að meta leiðindakellinguna sem birtist í dyragættinni úfin og þreytt og segir honum að fara aftur að sofa. Kann einhver að laga pabbaveiki?
Man einhver eftir Reach tannbursta-auglýsingum frá því snemma á 10. áratugnum? Kallinn sem hafði hjörulið til að opna munninn... djöfull væri gott að hafa einn slíkan núna, þá gæti ég geispað aðeins betur.
Athugasemdir
hver man ekki eftir reach auglýsingunni: "Ánægð er konan og tandurhreinar tennur"
Óli Njáll Ingólfsson, 5.7.2007 kl. 20:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.