18.5.2007 | 22:55
Á ég að elska'nn eða á ég ekki...
Þetta söng ég oft þegar ég var yngri. Yfirleitt hafði ég þó engan sérstakan í huga þegar ég söng, gaulaði meira svona mér til ánægju og yndisauka en foreldrum mínum til armæðu og pirrings. En það var nú ekki það sem ég ætlaði að blogga um.
Þetta lag hefur komið nokkrum sinnum upp í huga mér síðustu daga og alltaf í tengslum við þá hugsun um hvort ég eigi skella mér í blogg-streðið á nýjan leik. Þessi færsla er því prófraun á eigin leti. Á ég að blogga eða á ég ekki... bloggið getur breyst í þunga hlekki... ég er ekki gerð til að blogga í blokk... Nei, nú varð þetta of súrt.
En sjáum til. Kannski hef ég enn eitthvað ómálefnalegt og undarlegt fram að færa í netheimum. Kannski er ég ekki alveg steríl vísitöluhúsmóðir úr Vesturbænum sem getur ekki sagt frá neinu öðru en bleyjuafrekum sonarins og hvernig uppvaskið gangi. (Og bæ ðe vei, það gengur eins og í lygasögu eftir að mín splæsti í uppþvottavél fyrir nokkrum mánuðum)
Já, sjáum til. Kannski er ég ekki dauð úr öllum æðum. Og þó, sú staðreynd að ég skuli hefja blogg á nýjan leik rétt upp úr klukkan 11 á föstudagskvöldi segir nú meira um mig en margt annað. Það segir aðallega tvennt: 1) ég lifi afar óspennandi lífi og 2) ég verð nauðsynlega að skella mér í bólið núna ef ég ætla í ræktina í fyrramálið.
Segjum það í bili.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.